Valmynd Gerast meðlimur


12. mars

ÍMARK dagurinn 9. mars 2018

Það var fullt út úr dyrum á ÍMARK deginum 9. mars. sl. á Hilton Reykjavík Nordica. Færri komust að en vildu því uppselt var á markaðsráðstefnuna. Um kvöldið voru svo Íslensku auglýsingaverðlaunin - Lúðurinn 2018 þar sem veitt voru verðlaun fyrir það sem vel var gert í markaðsmálum á undangengnu ári, 2017, bestu hugmyndavinnuna í auglýsingagerð og útfærslu á henni.

Hér má sjá umfjöllun um daginn, en nánar má lesa um úrslit Lúðursins, Íslensku auglýsingaverðlaunanna á imark.is.

María – formaður ÍMARK
María Hrund Marinósdóttir, formaður stjórnar ÍMARK, setti ÍMARK-daginn og bauð gesti velkomna. Hún taldi upp ýmsa viðburði á vegum ÍMARK á síðasta ári og sagði að á ráðstefnunni nú væri litið yfir farinn veg og reynt að spá fyrir um það sem koma skal í markaðsmálum. María sagði ýmislegt á döfinni hjá ÍMARK. Það helsta sé námsferð í maí en þá heimsækja félagsmenn framúrskarandi markaðs- og auglýsingafyrirtæki í Stokkhólmi í Svíþjóð.

Stefán Sigurðsson - fundarstjóri
Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, var fundarstjóri á ÍMARK-deginum og hélt gestum á tánum og spurði fyrirlesara dagsins gagnlegra spurninga sem vörpuðu oft á tíðum skýrara ljósi á umfjöllunarefnið.

Peter Field
Meiri tækni – meiri árangur?
Peter Field fjallaði í erindi sínu um breytingar í markaðssetningu í kjölfar netvæðingar og tilkomu samfélagsmiðla. Að hans mati hefur skammtímahugsun því miður orðið ofan á í markaðsstarfi.

Field sagði markmið í markaðsmálum skiptast í tvennt, til langs tíma og skamms tíma. Einnig nefndi hann samfélagsmiðla og netherferðir sem árangursrík tæki í markaðsstarfi til skamms tíma, sem og miðlar eins og auglýsingar í tölvupósti, markpóstur, SMS-skilaboð, greidd leit og fleira í þeim dúr. Af þeim sökum er freistandi að nýta þá. Á hinn bóginn eru stuðningur (sponsorship), sjónvarpsmiðlar og auglýsingar í prentmiðlum líklegri til að styrkja vörumerki í sessi til langframa. Síðasttöldu boðleiðirnar sagði hann þær árangursríkustu til lengri tíma litið, sérstaklega þegar markaðsefnið er á tilfinningalegum nótum – líkt og það kynningarefni sem verslanir og flugfélög senda frá sér í aðdraganda jóla og stórhátíða.

„Fólk man ekki eftir skammtímaáhrifum. Það skilar sér ekki í sterkara vörumerki í hugum fólks“, sagði Field og lagði ríka áherslu á að hættulegt sé að setja allt markaðsfé í nýjustu boðleiðirnar sem hafa meiri skammtímaáhrif. Þvert á móti sé sjónvarp ekki að deyja út alveg á næstu árum og dauða prentmiðla sagði hann orðum aukinn. Sjónvarp og prentmiðlar skili þvert á móti mjög góðum árangri sem markaðstæki og muni gera það á næstu árum.

Field sagðist oft spurður hvernig eigi að selja ungu fólki vörur og þjónustu. Hann svaraði því til að ungt fólk hafi almennt ekki mikil fjárráð og eyði ekki miklu. Tíminn eigi eftir að leiða í ljós hvort þau haldi áfram að nota net- og samfélagsmiðla eins og nú eða hvort ungt fólk feti í fótspor foreldra sinna, eignist börn og fari að horfa á sjónvarp og lesa prentmiðla.

Niðurstaða Peter Field var að nýta bæri markaðsherferðir með langtímasjónarmið í huga sem og skammtímasjónarmið. Árangursríkasta blandan er að 60% markaðsfjár fari í markaðssetningu til langs tíma en 40% markaðsfjárins í skammtímamarkmið.

Namrata Patel  
Samfélagsmiðlar – hvað virkar og hvað ekki?
Namrata Patel ræddi um samskipti fólks og hvernig eigi að bera sig að við notkun samfélagsmiðla. Hún sagði að þrátt fyrir að samskiptatæknin taki breytingum þá breyti það ekki því hvernig fólk hagar sínum samskiptum. Fólk vilji heyra góða sögu. Alltaf séu til áheyrendur sem vilji hlusta á upplifun annarra. Að þessu sögðu þarf að tryggja að saga fyrirtækis, vörumerkis eða vöru tengist þörfum neytenda. Tilfinningar spila stóra rullu í auglýsingum. Árangur náist þegar auglýsing nái að snerta hjarta neytandans.

Layne Harris og Daniel Bremmer
Er tæknin að drepa sköpunargleðina?
Þeir Layne Harris og Daniel Bremmer voru með hressilegt erindi um áhrif tækniþróunar á sköpunarmátt auglýsinga. Þeir bentu á að þróunin á Íslandi sé hægari en úti í hinum stóra heimi, s.s. í Bandaríkjunum. Árið 2017 hafi meira fjármagn verið sett í netauglýsingar í Bandaríkjunum en auglýsingar í sjónvarpi. Netauglýsingar séu hins vegar aðeins 20% af markaðnum hér.

Layne Harris er margverðlaunaður tæknifrumkvöðull, framleiðandi og aðdáandi alls sem tengist tækni. Hann leiðir frumkvöðlateymið hjá “360i New York”, og vinnur hörðum höndum af því að ýta mörkum markaðstækni eins langt og þau komast.

Daniel Bremmer leiðir sköpunarvinnu hjá Íslensku auglýsingastofunni. Hann hefur unnið með auglýsingastofum um allan heim, þar á meðal 360i, BBDO, SS+K, Venables Bell & Partners, TBWA/Chait/Day, Huge, Wexley, School for Girls, Karmarama og Publicis.

Þeir félagar sögðu góða auglýsingu hjálpa neytendum og voru sammála Patel sem talaði á undan, að tilfinningar geti fangað hug og hjörtu áhorfenda. Máli sínu til staðfestingar sýndu þeir hjartnæmar jólaauglýsingar Icelandair og sögðu frá verkefni sem þeir unnu með Canon. Verkefnið fólst í því að nýta talnagögn til að finna staði þar sem margir höfðu tekið ljósmyndir. Auglýsingar voru settar upp á þeim stöðum og var innihald þeirra aðstoð við fólk, s.s. bent á hvaða stillingar á myndavélum hentuðu miðað við birtuskilyrði á stað og stund.

Harris og Bremmer sögðu mikilvægt að forsvarsmenn fyrirtækja séu nægilega vakandi fyrir því að grípa tækifærin þegar þau gefast til að láta vörumerki viðkomandi fyrirtækis vita af sér á skemmtilegan og skapandi hátt.

Markaðskönnun MMR
Ólafur Þór Gylfason, framkvæmdastjóri MMR fór yfir niðurstöður markaðskönnunar um auglýsingastofur og kynnti auglýsingastofu og vörumerki ársins 2017 samkvæmt vali stjórnenda markaðsmála.

Brandenburg var auglýsingastofa ársins 2017 og WOW air vörumerki ársins 2017.

Árangursríkasta auglýsingaherferðin 2017.
Verðlaun voru veitt fyrir árangusríkustu herferðina en það var Blóðskimun til bjargar sem hlaut verðlaunin að þessu sinni. Verkefnið var unnið af Háskóla Íslands og Hvíta húsinu.

Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor og forsprakki rannsóknarinnar Þjóðarátak gegn mergæxlum, fór yfir markaðsherferð verkefnisins Blóðskimun til bjargar frá a-ö.

Að mati dómnefndar var herferðin framúrskarandi. Hún náði árangri á heimsvísu, hafði skýr markmið og var undirbúningur mjög góður. Þá þótt samsetning miðla og almannatenglsa góð.

Sigurður sagði árangur herferðarinnar mjög góðan. Aðstandendur átaksins hafi náð til 55% markhópsins og skráð 80.770 þátttakendur í rannsókninni. Þetta hafi skilað því að 1.500 einstaklingar hafi verið greindir með forstig mergæxlis og eru sjö þegar byrjaðir í krabbameinslyfjameðferð.

Katie Mckay Sinclair
Geta markaðsmál breytt heiminum?
Mckay Sinclair er framkvæmdastjóri stefnumótunar og meðeigandi stofunnar Mother í London. Undir stjórn hennar hefur IKEA verið eitt verðlaunaðasta fyrirtæki Bretlands. Mckay Sinclair hefur einnig einbeitt sér að því að skipuleggja til góðs. Hún fór fyrir Mother verkefnunum „Feminism Initiatives Project Bush“ og „Make Them Pay“ árið 2013. Hún hefur einnig unnið með Sameinuðu þjóðunum að þróun alþjóðlegrar samskiptaherferðar til þess að bæta aðgengi 2,5 milljarða fólks að hreinlætisaðstöðu.
Mckay Sinclair var umhugað að láta gott af sér leiða. Hún fór yfir verkin sem Mother London hefur komið að, þar á meðal fyrir Ikea.

Hún sagði nokkur atriði skipta máli ætli fyrirtæki að láta gott af sér leiða. Í fyrsta lagi byrji breytingar hjá manni sjálfum, breytingar krefjast þess að horfa á mál frá öðru sjónarhorni og breytingin geti falist í því að hjálpa öðrum.

Mckay Sinclair velti því fyrir sér hvað íslenskt markaðsfólk geti gert til að bæta heiminn og hvort það sé í aðstöðu til þess. Hún sagði svo vera. „Þið getið látið eitt mál verða stórt. Þið hafið náð góðum árangri. Ég er viss um að hvað sem það er sem þjóðin stendur frammi fyrir þá getið þið lagað það og bætt heiminn. Þið getið bætt heiminn í 365 daga á ári. Þið þurfið aðeins að velja málefnið.“

Donald Mckinney
Eiga auglýsingar sér framtíð?

Donald Mckinney viðurkenndi að hann viti ekki hver framtíð auglýsingar er. Hann sagðist vera fremur svartsýnn á framtíðina og benti á að þegar hann hóf störf í auglýsingabransanum hafi fyrirtækin haft markmið, þau hafi viljað breyta heiminum. Nú sé það erfiðara því samfélagsmiðlar og snjalltæki hafi valdið því að fólk er fast inni í eigin bólu. Það er neikvæða hliðin.

Þrátt fyrir almenna svartsýni sagðist Mckinney sömuleiðis bjartsýnn og vitnaði til framtíðarfræðinganna Alvin og Heidi Tofler sem skrifuðu Future Shock. Þau sögðu að þau sem verði ólæs á 21. öldinni séu þau sem ekki verði tilbúin til að læra neitt nýtt. Forvitni og viljinn til að læra sé lykillinn að framtíðinni, að hans mati.