Valmynd Gerast meðlimur


13. desember

Markaðsfyrirtæki ársins 2018

Þann 6. desember sl. tilnefndi dómnefnd fjögur fyrirtæki til Íslensku markaðsverðlaunanna 2018 en þau eru í stafrófsröð; Arion banki, Dominos, Nova og Nox Medical. Það er mat dómnefndar að hjá öllum þessum fyrirtækjum sé unnið afar faglegt markaðsstarf.

Í dag útnefndi ÍMARK markaðsfyrirtæki ársins 2018. Markaðsfyrirtæki ársins 2018 er Arion banki. María Hrund Marinósdóttir, formaður ÍMARK og markaðsstjóri Borgarleikhússins stýrði dagskránni. Það var frú Eliza Reid sem að afhenti Arion banka verðlaunin. Formaður dómnefndar var Dr. Þórhallur Guðlaugsson, dósent við Háskóla Íslands.

Rökstuðningur dómnefndar:

Arion banki, hefur eins og önnur fjármálafyrirtæki, gengið í gegnum mikinn ólgusjó frá efnahagshruninu haustið 2008 með tilheyrandi krefjandi verkefnum. Þannig hefur bankinn farið í gegnum mikið innra starf, gert margvíslegar greiningar og mótað markaðsstefnu undir yfirskriftinni „Úr vörn í sókn“. Í stefnunni er sérstök áhersla á framtíðina og hefur bankinn sett sér það metnaðarfulla markmið að verða fremsti stafræni bankinn á Íslandi.

Það er mat dómefndar að allt markaðsstarf hafi faglegt yfirbragð. Gerðar eru viðeigandi greiningar á markaðsumhverfinu, mótuð stefna sem tekur mið af þeim veruleika, og útfærsla markaðsstarfsins er fagleg, trúverðug og virðist líkleg til árangurs.