Valmynd Gerast meðlimur


12. desember

Markaðsmaður ársins 2017

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, var kjörinn Markaðsmaður ársins 2017
hjá ÍMARK, samtökum markaðsfólks á Íslandi.

Árleg Markaðsverðlaun ÍMARK, samtaka markaðsfólks á Íslandi, voru afhent við hátíðlega athöfn í kvöld á Kjarvalstöðum,
en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti Markaðsmanni ársins verðlaun fyrir árið 2017.

Íslensku Markaðsverðlaunin hafa verið afhent 25 sinnum, en þetta er í 19. skiptið sem ÍMARK heiðar einstakling fyrir vel unnin markaðsstörf.

-----


Skúli Mogensen, forstjóri WOW air er Markaðsmaður ársins 2017. Þetta var samhljóða álit dómnefndar ÍMARK,
samtaka markaðsfólks á Íslandi, sem veitti Markaðsverðlaunin 2017 á Kjarvalstöðum í dag.

Verðlaunin eru veitt þeim einstaklingi, sem þykir hafa sýnt framúrskarandi árangur í markaðsstarfi á líðandi ári.
Við valið er leitast við að fá sem fjölbreyttastar skoðanir úr atvinnulífinu.

Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar, tilkynnti úrslitin.
Hann var jafnframt Markaðsmaður ársins 2015 og formaður dómnefndarinnar.

Dómnefndin í ár var skipuð úrvalsfólki úr íslensku atvinnulífi. Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar var formaður dómnefndar. Andri var jafnframt kjörin Markaðsmaður ársins 2015, Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar, Andrés Jónsson eigandi og stofnandi Góðra samskipta, María Hrund MArinósdóttir, formaður stjórnar ÍMARK, Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, Ólafur Þór Gylfason, framkvæmdastjóri MMR, Elín Helga Sveinbjörnsdóttir og Jón Þorgeir Kristjánsson, framkvæmdastjóri ÍMARK.

Skúli Mogensen er stofnandi, forstjóri og eini eigandi WOW air. Fyrir stofnun flugfélagsins hafði hann unnið sem frumkvöðull og fjárfestir, aðallega í tækni-, fjölmiðla- og fjarskiptageiranum í Norður-Ameríku og Evrópu. Skúli var einn af stofnendum og framkvæmdastjóri farsímahugbúnaðar-fyrirtækisins OZ, samhliða því sem hann lærði heimspeki í Háskóla Íslands. Þegar mest var voru um 200 starfsmenn hjá OZ, þá seldi fyrirtækið um 100 milljónir eintaka af hugbúnaði sínum til allra helstu fjarskiptafyrirtækja og farsímaframleiðenda heims. OZ var selt til Nokia árið 2008. Jafnframt tók Skúli þátt í að stofna Íslandssíma á sínum tíma sem er núna orðið annað stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins undir merkjum Vodafone.

WOW air var stofnað í nóvember 2011 og fór í jómfrúarflug sitt til Parísar 31. Í maí 2012. Skúli er sannur frumkvöðull og hefur náð gríðarlega miklum árangri með vörumerki WOW air og vaxið hratt á markaði þar sem samkeppni er hörð. Því hefur það kallað á mikla greiningarhæfni og hæfileika til að skilja markaðinn og aðgreina sig frá öðrum fyrirtækjum.

Það má með sanni segja að Wow air sé markaðsdrifið fyrirtæki þar sem allar aðgerðir fyrirtækissins eru grundvallaðar
á þörfum markaðsins og settar fram með ferskum og líflegum hætti sem skapaði fljótt öfluga samkeppni á flugmarkaði.

Skúli hefur stýrt félaginu með hugrekki, krafti og sterkri markaðsnálgun að leiðarljósi í fyrirtæki sem býður ódýrt flug til
vinsælla áfangastaða í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu, allan ársins hring. Flugfélagið hefur vaxið á ótrúlegum hraða frá
stofnun þess og fjöldi gesta vaxið jafnt og þétt frá fyrsta fluginu 2012. Árið 2013 flaug WOW air með yfir 400.000 gesti.

Árið 2016 flugu u.þ.b. 1.6 milljón gestir með WOW air. Nú fimm árum eftir stofnun félagsins er reiknað með að hátt í 3 milljónir gesta muni fljúga með WOW 2017. Skúli er einn af stofnendum WOW Cyclothon, árlegri boð-hjólreiðakeppni þar sem hjólað
er hringinn í kringum landið til styrktar góðu málefni. Keppnin er dæmi um hugmyndaauðgi og drifkraft hans en keppnin
hefur vaxið samhliða WOW air og er í dag stærsta hjólreiðakeppni landsins og vekur mikla athygli ár hvert.

Hjá WOW air starfa nú um 1.100 manns. Flestir starfsmenn félagsins eru með víðtæka reynslu í ferðamanna- og
flugbransanum og hvort sem um ræðir flugumsjón, símsvörun eða öryggi gesta um borð, þá er valin fagmanneskja í
hverja stöðu.

Hjá WOW er innri markaðssetning mjög stór hluti af drifkrafti fyrirtækisins. Og það er augljóst að stjórnendur gera sér
grein fyrir mikilvægi þess að hafa ánægt starfsfólk sem skilar sér í ánægðum viðskiptavinum.