Valmynd Gerast meðlimur


29. nóvember

Markaðsmanneskja ársins 2019

í Gærkvöldi fimmtudaginn 28. nóvember voru Íslensku markaðverðlaunin; Markaðsmaður ársins, afhent í Gamla bíói við hátíðlega athöfn. Það eru hjónin Bjarney Harðardóttir og Helgi Rúnar Óskarsson eigendur 66°Norður sem deila titlinum í ár.

Verðlaunin eru veitt þeim einstaklingi sem þykir hafa sýnt framúrskarandi árangur í markaðsstarfi á líðandi ári. Við valið er leitast við að fá sem fjölbreyttastar skoðanir úr atvinnulífinu en dómnefnd skipa fyrrum formenn ÍMARK, fulltrúar úr stjórn ÍMARK, fulltrúar frá rannsóknarfyrirtæki, háskólasamfélaginu og úr atvinnulífinu. Dómnefnd taldi þau hjónin eiga bæði rétt á nafnbótinni og því var úr að þau deila henni. Það var Lív Bergþórsdóttir, formaður dómnefndar sem sjálf hlaut nafnbótina árið 2012, sem veitti þeim Helga og Bjarneyju verðlaunin.

Sjóklæðagerð Íslands var stofnuð á 66. breiddargráðu á Suðureyri við Súgandafjörð árið 1926 af Hans Kristjánssyni sem ferðaðist til Noregs til að læra að sauma sjóföt. Fljótlega fóru vörur félagsins að klæða björgunarsveitir landsins og aðrar vinnandi stéttir. Það má segja að vörur 66°Norður hafi fylgt íslensku þjóðinni í gegnum súrt og sætt undanfarin 93 ár en strax á fjórða áratug síðustu aldar fór félagið að hanna og sauma fatnað á almenning til daglegra nota í íslenskri veðráttu.

Það eru tæp 9 ár frá því Helgi og Bjarney komu að félaginu og má segja að strax frá fyrsta degi hafi markmið þeirra verið að hlúa að vörumerkinu og byggja það upp í gegnum virtar dreifileiðir erlendis. Lögð var áhersla á að halda í þá sterku arfleifð fyrirtækisins sem byggir fyrst og fremst á því að hanna og framleiða fatnað sem ekki bara stenst ströngustu gæðakröfur sem eru gerðar til útifatnaðar heldur eru hannaður til að endast svo árum skiptir. Hönnunin þarf því að vera tímalaus og er óhætt að segja að því markmiði hafi verið haldið til streitu því margar af vörum félagsins sem eru í sölu í dag hafa verið í vörulínunni svo árum skiptir og sumar hverjar í meira en tvo áratugi. Jafnframt hefur það verið kappsmál hjá þeim hjónum að gefa engan afslátt þegar kemur að gæðum og eru vörur félagsins með lífstíðarábyrgð.

Það kostar mikla peninga að byggja upp vörumerki svo eftir sé tekið á erlendum mörkuðum og því ákváðu Helgi og Bjarney að taka inn erlendan fjárfesti sem kom ekki bara með fjármagn heldur líka þekkingu og reynslu í að byggja upp virt vörumerki í fatageiranum. Það má því segja að árið 2018 hafi verið tímamótaár hjá 66°Norður.

Starfsemin hefur öll verið endurskipulögð með það að markmiði að styrkja innviði félagsins svo það sé í stakk búið að vaxa enn frekar á erlendri grundu. Mikil vinna hefur verið sett í hönnun og vöruþróun en vörulínan hefur tekið töluverðum breytingum á undanförnum misserum og hafa vörur 66°Norður verið í boði í mörgum af virtustu verslunum heims í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan. Vörur félagsins hafa fengið einróma lof í erlendum fjölmiðlum víða um heim. Til að auka fjölbreytileika og koma merkinu á framfæri við nýja kaupendur hefur 66°Norður farið í samstarf við þekkta innlenda og erlenda hönnuði og fyrirtæki. Nú síðast með danska kvenfatamerkinu Ganni en það samstarf fékk einróma lof gagnrýnenda og var selt í hundruðum verslana víða um heim.

Síðast en ekki síst, vörumerki 66 norður er ótrúlega sterkt hér á landi en 99% heimila á íslandi eiga a.m.k. eina flík frá 66 norður. Vörumerkið hefur fylgt þjóðinni síðastliðin 93 ár og er óhætt að segja að sú mikla vinna sem þau hjónin hafa lagt í vörur og ímynd félagsins ásamt starfsfólki sínu, hafi skilað sér í enn öflugra vörumerki, vandaðri vörum og aukinni ánægju viðskiptavina.