Valmynd Gerast meðlimur


15. ágúst

Þóra Hrund nýr framkvæmdastjóri ÍMARK

Þóra Hrund Guðbrandsdóttir hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri ÍMARK. Hún hóf störf í ágúst og tekur við af Jóni Þorgeiri Kristjánssyni sem hefur gengt starfinu síðan 2017 og lætur að störfum að eigin ósk og hefur verið ráðinn forstöðumaður samskipta- og markaðsmála hjá Þjóðleikhúsinu. 

 

Áður starfaði Þóra Hrund sem sjálfstætt starfandi verkefnastjóri á sviðum markaðsmála, upplifunar- og viðburðahönnunar ásamt því að vera annar eigandi af útgáfufyrirtækinu MUNUM og upplifunarfyrirtækinu Já takk.

Þóra Hrund er með B.S. gráðu í viðskipta- og markaðsfræðum, og er að ljúka meistaranámi í stjórnun & stefnumótun og verkefnastjórn ásamt því að vera markþjálfi.

„Við bjóðum Þóru Hrund hjartanlega velkomna til ÍMARK. Við erum algjörlega í skýjunum með að fá hana í hópinn og mun reynsla hennar og hæfileikar reynast vel við að auka veg og virðingu markaðsmála hérlendis,“ segir Andri Már Kristinsson, formaður ÍMARK.

„Heimsfaraldurinn hefur reynst mikil prófraun fyrir markaðsfólk á Íslandi og mun ÍMARK leggja áherslu á að draga fram lærdóm síðustu mánuða og finna leiðir hvernig fyrirtæki og stofnanir geti lagað sig að gjörbreyttu landslagi. Þóra Hrund mun vinna að því að gera ÍMARK að aðgengilegu og virku samfélagi markaðsfólks á Íslandi með spennandi viðburðum og virkri umræðu um markaðsmál.“

Þóra Hrund segist sjálf vera ánægð og spennt fyrir nýja hlutverkinu.

„Einnig er ég spennt að fá að takast á við þær áskoranir sem við erum að fást við í breyttu umhverfi. Þetta breytta umhverfi felur líka í sér aukin tækifæri til að gera hlutina með öðrum hætti en áður og sé ég fyrir mér að ÍMARK ætti að vera samfélag markaðsfólks á Íslandi dag frá degi en ekki einungis í kringum viðburði ÍMARK sem hafa verið þungamiðja í starfi ÍMARK,“ segir Þóra Hrund.

„Við viljum skapa virði fyrir félagsmenn og búa til vettvang sem stuðlar að kröftugri umræðu um ábyrgt og metnaðarfullt markaðsstarf, efla tengsl félagsmanna og vera vettvangur til að miðla þekkingu, reynslu og því sem ber efst á baugi markaðsmála hverju sinni.“

Eldri fréttir