Valmynd Gerast meðlimur

Flokkar og reglur

Lúðurinn

Lúðurinn eru verðlaun sem veitir frumlegum, skapandi og snjöllum hugmyndum sem eru útfærðar á framúrskarandi hátt viðurkenningu.

Flokkar

Verðlaun eru veitt í eftirtöldum flokkum:

1. Kvikmyndaðar auglýsingar
Auglýsingar, leiknar, ljósmyndaðar eða teiknaðar, sem gerðar eru fyrir sjónvarp, kvikmyndahús eða vefmiðla. Leyfilegt er að senda inn fleiri en eina kvikmyndaða auglýsingu séu þær hluti af sömu herferð.

2. Útvarpsauglýsingar
Auglýsingar sem eingöngu eru gerðar fyrir útvarp. Hljóðrásir af sjónvarpsauglýsingum eru ekki gildar. Leyfilegt er að senda inn fleiri en eina útvarpsauglýsingu séu þær hluti af sömu herferð.

3. Prentauglýsingar
Auglýsingar sem gerðar eru til birtinga í dagblöðum og/eða tímaritum. Leyfilegt er að senda inn fleiri en eina prentauglýsingu séu þær hluti af sömu herferð.

4. Vefauglýsingar
Auglýsingar sem birtast í keyptu rými í vefumhverfi. Auglýsing getur einnig verið míkróvefur, herferðarvefur, leikir sem ætlaðir eru til að vekja athygli á vöru eða þjónustu eða auglýsingar í farsíma. Varanlegir vefir auglýsanda eiga ekki heima í þessum flokki. Leyfilegt er að senda inn fleiri en eina vefauglýsingu séu þær hluti af sömu herferð.

5. Stafrænar auglýsingar
Hér erum að ræða flokk fyrir auglýsingamiðlun á eigin miðlum. Undir þennan flokk fellur stafrænt efni á eigin miðlum, herferðar heimasíður, lendingarsíður, snjalltækja öpp, farsímavefir, leikjasíður og önnur stafræn auglýsingamiðlun. (ATH ekki er verðlaunað fyrir varanlega vefi auglýsenda).

6. Samfélagsmiðlar
Stök auglýsing eða herferð fyrir samfélagsmiðla. Dómnefnd skal horfa til hversu snjöll notkun samfélagsmiðla er og hvernig skilaboðum og hugmynd er komið á framfæri.

(Sérstaklega er tekið fram að þessi flokkur er ekki „like“-talning.)

7. Umhverfisauglýsingar og viðburðir
Þrívíð grafík á umhverfisskilti, sýningarbásar eða viðburðir sem vekja athygli á vöru og/eða þjónustu eða byggja upp ímynd fyrirtækis gagnvart viðskiptavinum eða starfsmönnum.

8. Veggspjöld og skilti
Tvívíð grafík á t.d. umhverfisskilti og/eða hefðbundin plaköt. Leyfilegt er að senda fleiri en eina auglýsingu séu þær hluti af sömu herferð.

9. Bein markaðssetning
Bein markaðssetning í t.d. prentuðu eða rafrænu formi, hlutur eða gjörningur sem sendur er á fyrirfram skilgreindan hóp í þeim tilgangi að framkalla bein viðbrögð. Lágmarksfjöldi markhóps er 300 einstaklingar/fyrirtæki.

10. Mörkun - ásýnd vörumerkis
Mörkun eða endurmörkun fyrirtækis tekur til nýrra eða eldri vörumerkja. Um er að ræða breytingar á merki eða heildarútliti. Sýna skal útlit fyrir og eftir breytingu sé um endurmörkun að ræða.

11. Herferð
Hér skal skila inn samsettu efni, kvikmynduðum auglýsingum. Ekki skal senda inn kynningarmyndband á herferðinni sem heild, einungis stakar myndir af einstökum hlutum hennar.

12. Almannaheillaauglýsingar (Non profit)

Þátttökureglur

Fyrri umferð

 • Allt sem fram þarf að koma og skila sér til dómnefndar þarf að vera innan innsendingarformsins.
 • Ekki má breyta innsendingarforminu.
 • Ekki er heimilt að nota hreyfingu í innsendingunum þó Keynote/PowerPoint bjóði upp á slíkt. 
 • Sé þörf á að vekja sérstaklega athygli á tilteknum þáttum innsendra auglýsinga er gott að nýta síður fyrir frjálsa nýtingu til þess. Sem dæmi um slíkt væri t.d. að þysja inn á myndefni eða texta sem óskað er eftir að dómnefnd veiti sérstaka athygli. 
 • Ekki er heimilt senda inn hlekki á vefsvæði, samfélagsmiðla eða vefborða. Í slíkum tilfellum er heimilt að senda inn video-upptökur af virkni auglýsinga til útskýringa. 
 • Í fyrri umferð er eingöngu ætlast til að innsendingar innihaldi myndefni en ekki kvikmyndað efni eða hljóðsett nema í þeim flokkum sem krefjast þess sérstaklega.
 • Ekki er heimilt að hljóðsetja video-upptökur eða myndbönd með öðrum hljóðum en þeim sem birtust þeim sem sáu auglýsinguna upphaflega.
 • Allur texti sem kemur fram í auglýsingu skal fylgja með innsendingu í keynote skjalinu. 

 

Seinni umferð

 • Þeir sem komast áfram í seinni umferð dómnefndarinnar fá tilkynningu um það.
 • Í seinni umferð eru heimilaðar innsendingar á myndböndum skv. þátttökureglum. 
 • Nákvæmur kreditlisti yfir eftirfarandi fagsvið skal fylgja innsendingum í seinni umferð: Hönnuðir, texta- og hugmyndasmiður, markaðsráðgjafi á stofu, starfsfólk fyrirtækis (markaðsdeildar) sem að verki komu, leikstjóri, framleiðandi, ljósmyndari, Aðrir sem að verki komu og rétt þykir að tiltaka.
 • Efni sem sent er inn í seinni umferð áskilur ÍMARK sér rétt til að birta opinberlega í tengslum við kynningu keppninnar og frétta í kjölfar hennar.