Markaðsfyrirtæki - dómnefndarferlið


Íslensku markaðsverðlaunin, markaðsfyrirtæki ársins, eru veitt fyrirtækjum sem hafa verið áberandi í markaðsmálum á líðandi ári og sannað þykir að sýnilegur árangur hafi náðst. Við ákvörðun um verðlaunahafa er tekið mið af fagmennsku við markaðsmálin og að fjárhagslegt öryggi sé til staðar.

Dómnefnd

Dómnefnd á markaðsfyrirtæki ársins skipa fulltrúar úr stjórn ÍMARK, háskólasamfélaginu og atvinnulífinu ásamt fulltrúa frá markaðsfyrirtæki ársins árið áður. Við dómgæslu ber dómurum að gæta fyllsta hlutleysis í dómum sínum, láta fagmennsku ráða niðurstöðu og gæta fyllsta trúnaðar í meðferð allra gagna.

Þátttaka fyrirtækja

Kallað er eftir upplýsingum frá sem flestum fyrirtækjum, en fyrirtækin þurfa að byrja á því að fylla út rafrænt form með grunnupplýsingum sem er auglýst fyrir félagsmönnum og kynnt á vefnum. Öll fyrirtæki geta tekið þátt sem hafa verið með vöru/þjónustu á markaði í a.m.k. 3 starfsár. Einungis þau fyrirtæki sem sent hafa inn umbeðnar upplýsingar á rafrænu forminu verða teknir fyrir og ræddir í dómnefnd. Dómnefndin velur formann dómnefndar. Dómarar gæta fyllsta trúnaðar í meðferð allra gagna sem fyrirtæki senda inn.

Einnig er óskað eftir tillögum frá félagsmönnum ÍMARK að markaðsfyrirtæki ársins og markaðsmanni ársins. Haft er samband við tilnefnd fyrirtæki og þau beðin að fylla út rafræna formið með grunnupplýsingum fyrir fyrstu umferð. Ekki verður tekið við gögnum eftir að frestur rennur út og fyrsta umferð dómnefndar er hafin.

Þeir aðilar sem taka að sér dómnefndarstörf í vali á markaðsfyrirtæki ársins skulu gera sér grein fyrir því að það fyrirtæki sem viðkomandi starfar hjá er sjálfkrafa útilokað frá þátttöku í vali á markaðsfyrirtæki ársins.

Dómnefndarferlið

Það eru haldnar a.m.k. þrjár umferðir þar sem dómnefndin kemur sér saman um þau fyrirtæki sem halda áfram í næstu umferð.

Í fyrstu umferð fer dómnefndin yfir grunngögnin frá fyrirtækjum og velja um 10 fyrirtæki sem komast áfram í næstu umferð. Hver dómari gefur fyrirtækjum einkunn frá 1 upp í 10. Dómnefndin fer yfir niðurstöður og ákveður hvaða fyrirtæki komast áfram. Óskað verður eftir frekari gögnum hjá þeim fyrirtækjum sem komast áfram.

Í annarri umferð er sami háttur á og í fyrstu umferð, dómnefndin fer yfir ítarlegri gögn frá fyrirtækjum og velja 3 fyriræki sem komast áfram í næstu umferð. Hver dómari gefur fyrirtækjum einkunn frá 1 upp í 5, .e. raðar á skalann frá 1 upp í 5 þar sem fimm er hæsta einkunn og einn lægsta einkunn. Dómnefndin fer yfir niðurstöður og velur fimm fyrirtæki sem dómnefnd heimsækir og fær formlega kynningu á markaðsstarfi fyrirtækisins.

Hver dómari gefur fyrirtækjunum sem heimsótt eru einkunn, þ.e. raðar á skalann frá 1 upp í 5 þar sem fimm er hæsta einkunn og einn lægsta einkunn.

Í þriðju umferð dómnefndar er farið yfir niðurstöður einkunnargjafar dómara að loknum fyrirtækjaheimsóknunum. Dómurum er frjálst að breyta niðurstöðunni ef það er sameiginleg ákvörðun þeirra að gera svo. Endanleg niðurstaða er munnlegt samkomulag dómnefndar (meirihlutinn ræður). 

Markaðsstarf fyrirtækja skoðað

Leitað er eftir upplýsingum sem varða markaðsstarf fyrirtækja og þegar óskað er eftir stuttri greinargerð frá einstaka fyrirtækjum þá er beðið um að eftirfarandi þættir komi fram:

  • Skipulögð markaðsvinna og gerð markaðsáætlana 
  • Árangur í markaðsstarfi síðastliðin ár
  • Markaðshlutdeild fyrirtækisins, þróun hlutdeildar síðastliðin ár og staða gagnvart samkeppnisaðila
  • Markaðsherferðir á árinu og hver var árangurinn
  • Ánægjustig viðskiptavina fyrirtækisins, stendur fyrirtækið framarlega m.v. samkeppnisaðila
  • Innri markaðssetning og ánægja starfsmanna
  • Annað sem fyrirtækið vill koma á framfæri sem gæti hjálpað til við valið

Ef tölulegar upplýsingar eru viðkvæmar geta fyrirtæki sagt til um breytingar milli ára í prósentum eða öðrum viðmiðum. Farið er með upplýsingarnar sem trúnaðarmál. 


Markaðsmaður ársins - dómnefndarferli

Íslensku markaðsverðlaunin, markaðsmaður ársins, eru veitt einstaklingi, sem hefur sýnt framúrskarandi árangur í markaðsstarfi á líðandi ári. Við valið er leitast við að fá sem fjölbreyttastar skoðanir úr atvinnulífinu. 

Dómnefnd

Dómnefnd á markaðsmanni ársins skipa fyrrum formenn ÍMARK, fulltrúar úr stjórn ÍMARK, fulltrúar frá rannsóknarfyrirtæki, nýsköpunarmiðstöð, úr háskólasamfélaginu, úr atvinnulífinu ásamt markaðsmanni síðasta árs.


Share by: